Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Er til flugmannaafsláttur líka ?

Sumt af íslenskum skatta- og ívilnunarreglum er greinilega orðið gamalt dót, þó ekki sé meira sagt. Sjómenn hafa haft þennan sjómannaafslátt, að mér skilst, í meira en hálfa öld, svo ekki er furða þó þeir rísi gegn því að við honum sé hróflað.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að mikið hafi breyst í aðbúnaði og kjörum sjómannastéttarinnar á hálfri öld og því hljóti að vera tímabært að endurskoða þessa ívilnun með sanngirni í huga.  Mér vitanlega hafa áhafnir flugvéla ekki sambærilegar ívilnanir í skattkerfinu, né t.d. starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar, sem dvelja stundum langdvölum fjarri fjölskyldu  og íslensku velferðarkerfi.  Einhvern veginn er komið til móts við þessa hópa í gegnum almenn kjör sem samið er um á vinnumarkaði.  Ég fæ ekki séð réttlætið í því að halda uppi þessum sjómannaafslætti.

Þeim fjármunum sem það sparar ríkinu að fella sjómannaafsláttinn niður væri vel varið til þess að hækka persónuafsláttinn sem því næmi.  Það kæmi þeim sem virkilega þurfa á að halda að mestum notum.


mbl.is Sjómenn vara stjórnvöld við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússar banna dauðarefsingar...

.. og komast þar með nær samfélagi siðmenntaðra þjóða.  Eftir sitja stórveldin Kína og Bandaríkin, með þann smánarblett sem beiting dauðarefsingar er.

Annars er það undarlegt að lönd sem lengst eru komin á sviði mannúðar- og mannréttindamála skuli ekki beita áhrifum sínum í meira mæli en raun ber vitni til að útrýma villimennsku pyntinga, nauðgana og grimmilegra refsinga sem viðgangast í stórum hluta heimsins.  Mannréttindi eiga ekki að vera lúxus hinna fáu.

Það er eins og að víða sé litið á refsingar, sem menn eru dæmdir í, sem hefnd samfélagsins.  Hámark hefndarinnar er að svipta hinn brotlega lífi eða ræna hann sjálfsvirðingunni, heilsunni og jafnvel vitinu fyrir fullt og allt. Á Íslandi er talað um betrunarhús, betrunarvist o.s.frv.   Er það hugtak yfirleitt til í öðrum tungumálum, eða sá skilningur sem í orðunum felst ?


mbl.is Banna dauðarefsingar í Rússlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elsti íbúi landsins: Rebbi

Mér hefur lengi legið forvitni á að vita hversu mikið fer af opinberu fé í að styrkja sportveiði á villtum ref. Hætt er við að það samsvari ófáum tonnum af dilkakjöti og sekkjum af æðardún. Því hefur verið haldið fram að tjón bænda af rebba sé gífurlegt, þó engar tölur séu birtar um mat á því.  Og þegar rök bænda þrýtur fara þeir að tala um mófugla.  Ef mófuglavernd væri aðalmálið, þá ætti með sömu rökum að ríkisstyrkja sportveiðar á smyril, skúm og fálka.

Sannleikurinn er sá að bændur, hvar sem er í heiminum, standa í stríði við hverja þá skepnu sem hirðir eitthvað af bústofni þeirra.  Í öðrum löndum stendur stríðið við skógarbirni og úlfa, sama þó þessar tegundir séu í bráðri útrýmingarhættu sums staðar.

Það eru til tryggingafélög sem tryggja menn fyrir tjóni af ýmsum toga.  Því geta ekki bændur fengið sér tryggingar vegna meints tjóns af villtum dýrum ?  Ég er alveg handviss um að jafnvel þó iðgjöldin yrðu greidd af opinberu fé, yrði það snöggtum ódýrara en að borga bændum og öðrum styrki og verðlaun fyrir sportveiðar.  Væri þessi tilhögun tekin upp væri það tjónþolanna að sanna tjón sitt.

 


mbl.is Æðarræktendur vilja að ríkið greiði fyrir refaveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyndið - eða þannig

Eiginlega er það eina fyndna við þessa frétt fáfræði blaðamannsins sem skrifaði hana.  Japan er ævafornt keisaraveldi, en hér er þjóðhöfðingi landsins kallaður forseti !

Annars eru það almennir mannasiðir að sníða hegðun sinni að siðum gestgjafans, innan þeirra marka sem sem kunnátta og geta setja.


mbl.is Að hneigja sig eða hneigja sig ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samgönguframkvæmdir

Flest er þetta hið besta mál.  Það eina sem stingur í augu eru þessi margnefndu Vaðlaheiðargöng. Ég á erfitt með að koma auga á brýna þörf fyrir þessi jarðgöng.  Vegurinn um Víkurskarð er góður og vandaður vegur og jarðgöng sem stytta ekki nema 16 km leið sem að auki er næsta hættulítill geta ekki talist mikilvæg.

Það þarf hins vegar að ljúka gerð Hringvegarins.  Þar er hægt að stytta hringinn um rúma 60 kílómetra með því að byggja frambærilegan veg um Öxi, - hugsanlega að hluta til í jarðgöngum.  Sömuleiðis vantar jarðgöng undir Lónsheiði, stutt göng sem legðu af verulega hættulegan vegarkafla um Hvalnes- og Þvottárskriður.

Þá vil ég nefna ástandið í samgöngum Vopnafjarðar og byggðanna þar fyrir norðan:  Það er brýnt að gera jarðgöng milli Vopnafjarðar og Héraðs og þar með stytta leið milli þessarra nágrannabyggða um 80 km.

En umfram allt: Látum allar umræður um lúxusframkvæmdir í vegamálum bíða þangað allur Hringvegurinn er lagður bundnu slitlagi og þar til allir þéttbýlisstaðir landsins eru tengdir vönduðu vegakerfi, hvar sem þessir staðir eru.


mbl.is Samgönguframkvæmdir undirbúnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgólfur - Björgrófur

Mér er hreinlega hætt að koma nokkur skapaður hlutur á óvart.  Næst fréttir maður eflaust að einhver hafi selt skuldabréf til að standa straum af útför ömmu sinnar, - ef þá ekki bara hreinlega selt af henni skrokkinn, eins og  í sögunni um Stóra-Kláus...

Menn sem nota að yfirvarpi einhvern minningarsjóð um látna dóttur til að koma út skuldabréfi upp á litlar 400 kúlur, það sýnir svo takmarkalausa siðblindu að orð fá ekki lýst.

Gaman væri að sjá bókhald þessa minningarsjóð !  Ef það er til.


mbl.is Vísað til efnahagsbrotadeildar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband