Drekasvæði og samfélagsuppbygging

Það er alveg rétt sem bent hefur verið á, að hvorki álver og virkjun né drekasvæðisævintýri sé sjálfkrafa ávísun á samfélagsuppbyggingu.  Sé þessu snúið við, þá er líka ljóst að samfélagsuppbygging verður ekki til án þess að framleiðsla og efnisleg verðmætasköpun sé með í myndinni.

Stærsti óvinur allra byggða utan Faxaflóasvæðisins er skortur á fjölbreytni í atvinnulífi og menntunarstig, ásamt misgóðum samgöngum.  Því fer fjarri að aðstæður frá náttúrunnar hendi hamli uppbyggingu sjálfbærra og þróttmikilla samfélaga utan höfuðborgarsvæðisins. Það er vítahringur fámennis, lágs menntunarstigs, lélegrar þjónustu og ekki síst:  Veikrar sjálfsímyndar.  

Það sem vantaði á Austurlandi var ekki bara álver og stór virkjun.  Það vantaði allt hitt líka.  Betri samgöngur, meiri þjónusta á öllum sviðum, mennta- og rannsóknarstarfsemi o.s.frv.  Ef þú biður kokkinn um að sjóða súpu fyrir 100 manns í stað 10, þá er ekki nóg fyrir hann að fá bara eitt af hráefnunum: Nei, kokkurinn þarf að fá meira af öllu því sem þarf í súpuna. En einkum og sér í lagi þurfa þeim sem fá súpuna á diskinn að þykja hún góð.

Norðausturland er í dag afskipt í samgöngum. Miklar fjarlægðir milli fámennra staða.  Enn er ekki búið að  ljúka við veginn yfir Melrakkasléttu.  Enn er ekki búið að gera jarðgöng milli Vopnafjarðar og Héraðs.  Enn er ekki kominn heilsársvegur um Öxi, hvorki á yfirborðinu eða um jarðgöng.  Norðausturland er landsvæði mikilla tækifæra og ekki er vafi á því að þess tími kemur.  Það er hins vegar hæpið að ætla að öll litlu byggðarlögin á þessu víðfeðma svæði muni lifa til frambúðar.  Jafnvel þótt olíuhreinsunarstöð eða þjónusta við olíuiðnað komi til.  Fólk sest einfaldlega helst að þar sem fjölbreytt þjónusta er fyrir hendi.  Vel kann að vera að Húsavík muni dafna í framtíðinni og að þar verði samfélag með nægu framboði af atvinnu fyrir konur og karla og lokkar heim unga og vel menntaða fólkið sem núna sest að annars staðar.  Það sem helst vinnur gegn því er nálægðin við Akureyri, sem hefur feikna forskot í samkeppninni um fólk.  Á Austurlandi er enginn stór byggðakjarni, en sá stærsti og sá sem í dag býður upp á mesta fjölbreytni í atvinnulífi á e.t.v. möguleika, vegna landfræðilegrar legu og annarra aðstæðna sem unnt er að styrkja.


mbl.is Íbúum fjölgi með olíunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göng á skökkum stað

Best væri að leggja til hliðar áætlanir um þessi Norðfjarðargöng.  Betri leið er að gera göng frá Eskifirði til Seyðisfjarðar, með afleggjurum til Héraðs og Norðfjarðar.  Vissulega dýrari framkvæmd en Norðfjarðargöng ein og sér, en sú lausn sem dugar.

Það er eins og allir hafi gleymt Vopnfirðingum:  Af hverju er ekki lögð meiri áhersla á að gera göng milli Héraðs og Vopnafjarðar ?  Það mundi tengja Norðausturlandið varanlega við stærsta þéttbýliskjarnan og þjónustumiðju Austurlands, Egilsstaði.  

Með nýjum vegi um Öxi sem kemur á næstu árum verður komi á góð tenging suður til Djúpavogs og Hafnar og Hringvegurinn styttist um 61 km.  Ef nýi vegurinn reynist erfiður á einhverjum smáköflum má gera stutt göng þar síðar meir.

Egilsstaðir og Seyðisfjörður eru tengipunktar Austurlands við umheiminn.  Seyðisfjarðarhöfn og Egilsstaðaflugvöllur eru tollstöðvar og tengingar við útlönd, rétt eins og Keflavíkurflugvöllur er á hinum enda landsins.


mbl.is Setur skilyrði fyrir lagningu Norðfjarðarvegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háttvirt og hæstvirt. Nú um sinn einungis virt - til jafns við aðra

Ágætu frambjóðendur, hvar í flokki þið standið!

Það eru litlar líkur til að þið lesið þessar línur, en engu að síður vel ég að tala í tómið, ef svo ber undir. Mér hefur verið hugleikinn sá samskiptamáti sem tíðkast jafnan þegar líður að kosningum.  Fyrir hinn almenna kjósanda er það eins og að koma í búð, þar sem einungis eru boðnar fjórar (eða sjö) vörutegundir. Þar standa fulltrúar þessa varnings og mæla allan kost á sinni vöru og löst á vöru hins næsta.  Við sem komum í þessa búð eigum þess kost að kaupa eitt stykki, eða ganga út og kaupa ekki neitt.  Ef við höfum keypt eitthvað, þá er fráleitt að vita hvernig varan muni reynast, því það kemur ekki í ljós fyrr en búðinni hefur verið lokað í allt að fjögur ár.

Hvernig væri að þið íhuguðuð með mér aðra nálgun á þessum "verslunarrekstri" ?

Þið eruð frambjóðendur, umboðslaus um sinn til að vera fulltrúar mínir eða annarra landsmanna.  Hvorki hæstvirt né háttvirt.  Bara virt.  Jafnt við annað fólk sem á virðingu skilið, nema annað sé verðskuldað.  Mitt er að tala og spyrja.  Ykkar er að hlusta og svara.  Mitt er að meta það hverju ykkar ég treysti best til að vera minn fulltrúi.  Því betur sem þið hlustið, þeim mun betur mun ég treysta ykkur.  Af svörum ykkar mun ég meta ykkur.  Ekki af auglýsingum ykkar og öðru skrumi, þar sem þið berið lof á ykkur sjálf og ykkar stefnu eða flokk.  Ef þið komið fram sem vörukynningarfólk í búð sem býður fram einhverja tiltekna vöru fyllist ég tortryggni. Ef þið leggið eyru við því sem ég og aðrir kjósendur segjum við ykkur og gefið ykkur tíma til að hlusta, þá eruð þið á réttri braut.  Vegna þess að þið eruð umboðsmenn annarra.  Valdið sem ykkur er falið kemur ekki frá ykkur sjálfum, heldur hafið þið það að láni frá öðrum.  Við kjósendur spyrjum ykkur spurninga, og ef þið svarið af skynsemi og virðingu fyrir spyrjandanum, án undanbragða og málskrúðs, þá uppskerið þið traust.

Við sitjum enn um sinn í viðjum flokksræðisins.  Meðan það er við lýði verður vöruúrvalið í "búðinni" fátæklegt.  Pakkað inn í fjóra eða sjö böggla sem við vitum ekki hvað innihalda.  Þegar við verðum búin að gera flokksræðið óvirkt og lýðræðið virkt, þá munið þið hlusta.  Ef til vill munum við kjósendur sjálfir hafa frumkvæði að því að finna fulltrúa meðal okkar sem ekki hefur neina gamla flokksstofnun á bak við sig, til að fara með umboð okkar.  Sá fulltrúi mun spyrja okkur hin álits um málin áður en atkvæði er greitt, ekki flokksforingjann eins og nú er.

Með kærri lýðræðiskveðju,

 ÞP


Að taka hús í fóstur

Það var eitthvað svo ljúfsárt að sjá og heyra í hugsjónafólkinu sem tók einn af gömlu kofunum í miðbæ Reykjavíkur í fóstur, en voru flæmd burtu af löggunni. Þarna átti að gera góða hluti, rækta kál, gefa rófur og kartöflur, stunda nám og róttækni.

Auðvitað er eignarréttur einskis virði.  Maður sér hús sem ekki er í notkun og flytur inn.  Sama hlýtur að gilda um bílana.  Það eru alls staðar mannlausir bílar og um að gera að vera ekki að kaupa sér bíl, heldur bara taka þann næsta sem er mannlaus.  Svo eru allar verslanir fullar af alls kyns varningi sem enginn er búinn að kaupa.  Eflaust er það vegna þess að enginn vill kaupa.  Bara - fara inn og nýta það sem enginn nýtir.

En af því að nú er einhver hópur hugsjónafólks hins nýja Íslands á götunni í 101, þá langar mig  til að benda á ágætt hús austur á Fáskrúðsfirði sem enginn nýtir.  Farið þangað.  Þar er líka nóg land til að rækta kál.  Svo spillir ekki að stutt er að fara í heimsókn til Alcoa, taka með sér garðávextina og láta þeim rigna yfir ósómann !

Gangi ykkur vel.franski_sp_237.jpg


Segðu þig úr flokknum líka !

Leiktu nú leikinn til enda og segðu þig úr þessum samtökum.

Það sem gerst hefur er bara fyrsti steinninn sem veltur í skriðunni.


mbl.is Andri hættir störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það má sjá þetta frá öðru sjónarhorni

Mér kemur ekkert á óvart þótt SjálfgræðisFLokkurinn fái peninga frá fyrirtækjum og einstaklingum.  Bara eðlilegt, sé haft í huga hvert raunverulegt eðli og innræti er hjá flokksmönnum.  Svipað er það eflaust í öðrum valdablokkum líka.  Það góða í þessu er að nú kemur raunverulegt eðli sérhagsmunaklíkanna í ljós.

Verra þykir mér að "stjórnmálaflokkar" skuli fá framlög af almannafé og vera á fjárlögum ríkisins.  Það ætti að banna með lögum og verður vonandi gert um leið og það verður bannað með lögum að þingmaður geti verið ráðherra samtímis setu á Alþingi.

Látum bara ránfuglana éta þau hræ sem þeir hafa lyst á, en ég frábið mér að þurfa að horfa upp á að hluti af mínu framlagi til samfélagsins fari í gegnum skattkerfið til stjórnmálaflokka, - sama hvað þeir heita.


mbl.is Skeytasendingar á vefsíðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál, þannig séð

Þetta með göng undir Fjarðarheiði er svo gott mál að það er ekki hægt annað en að taka jákvætt undir það.  Samt get ég ekki að því gert að velta því fyrir mér hvar þetta mál fellur inn í stærra samhengi.

Það sem vantar er framtíðarsýn eða stefnumörkun um þróun byggðar og samfélags á Austurlandi.  Ef sú stefna hljóðar upp á að landshlutinn styrkist í heild sinni og að hér verði eðlileg fólksfjölgun og stöðugleiki í samfélaginu - og jafnvel batnandi hagur til framtíðar, þá þarf margt að koma til. Eitt af því eru bættar samgöngur.  

Sterkt samfélag þarf mörgu að halda samtímis.  Traustum atvinnufyrirtækjum og fjölbreyttu atvinnulífi, góðum samgöngum, góðu menntakerfi, góðri opinberri þjónustu o.s.frv.  Það er ekki nóg að byggja álver og virkjun og halda síðan að allt annað komi að sjálfu sér.  Það er eins og að halda að það sé nóg að kaupa vélina þegar á að byggja skip.  Margt fleira þarf að koma til.

Lengi hafa verið uppi áform um jarðgangagerð á Austurlandi og aðrar vegabætur.  Má þar nefna hreyfinguna sem kennir sig við Samgöng.  Fleiri en ein hugmynd hefur komið fram.  Ein þeirra er sú að gera jarðgöng milli Eskifjarðar og Seyðisfjarðar, með hliðtengingum til Héraðs og Norðfjarðar.  Sú hugmynd er stórhuga, en mundi í raun koma samgöngum milli byggða á Austurlandi í verulega gott horf.

En aðeins til baka:  Ef markmiðið er að leggja nokkra tugi milljarða í jarðgangagerð á Austurlandi, sem lið í að styrkja byggð og samfélag, þá þarf einnig að leggja annað eins í peningum talið í skóla, rannsóknnar- og vísindastofnanir, opinbera þjónustu, heilsugæslu o.s.frv. o.s.frv.  Það þarf að vera liður í heildaráætlun.  Að setja fé í einn þeirra þátta sem styður slíkt markmið og sleppa öðrum er eins og að biðja kokkinn á veitingastað um að elda fyrir 100 manns í stað 10, en láta hann bara hafa fá meira af kartöflum, en sleppa öllu hinu.

Ég get ekki heldur varist því að hugsa til vegakerfisins eins og það er:  Enn er Austurland ekki í vegasambandi við aðra landshluta á óslitnu bundnu slitlagi.  Enn eru moldarvegarkaflar bæði til norðurs og suðurs.  Að auki er talsvert um vegi með bundnu slitlagi sem eru nánast ónýtir vegna missigs, krappra beygja og annars sem ekki beint til þess fallið að auka umferðaröryggi.

Ef til vill er hægt að lyfta grettistaki í því að efla byggð og mannlíf á Austurlandi fyrir ca 15 milljarða (ágiskað verð Seyðisfjarðarganga), ef þeim fjármunum er varið í  alla þá þætti sem gleymdist að styrkja samhliða álverinu á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun.  Það gæti t.d. komið til greina að einbeita sér að því að byggja upp þá atvinnustarfsemi sem laðar til sín fólk með góða menntun, - og ekki síst konur með góða menntun.  Staðreyndin er sú að unga fólkið okkar fer að heiman og menntar sig og sest síðan að þar sem störf við hæfi er að finna.  Og þá kemur Austurland því miður of oft aftarlega í röðinni.

Ég skal ekki mæla gegn tillögu um göng milli Seyðisfjarðar og Héraðs.  Það er hið besta mál út af fyrir sig, en ég lýsi eftir stærra samhengi.


mbl.is Vilja jarðgöng undir Fjarðarheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúklegt...

Þetta breytir engu. Sjálfgræðisflokkurinn verður einangraður frá öllum pólitískum áhrifum, næsta mannsaldurinn að minsta kosti.  Það er verðugt verkefni alls hugsandi fólks að sjá til að þau öfl sem valdið hafa meiri skaða í samfélaginu en nokkuð annað fyrirbrigði eftir móðuharðindin verði gerð óskaðleg.
mbl.is „Ákveðin krafa um endurnýjum “
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilrauninni minni að ljúka

Frá 21. febrúar sl. hefur hangið uppi fyrsta ljósmyndasýningin mín.  Ekki beint í bakgarðinum mínum, heldur á hinum enda landsins, í Saltfisksetrinu í Grindavík.  Það var vel mætt á opnunina og gaman að hitta ykkur öll sem lögðuð á ykkur að koma, þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið upp á sitt besta.  Nú er að renna upp síðasta sýningarhelgin, því á mánudaginn kemur (16. mars) fer ég og tek niður.

Annars gengur lífið sinn vanagang, alltaf eitthvað að gera og planleggja.  Nú fer að styttast í vorið og vorannirnar, sem m.a. felast í því að gera "fjallabílinn" kláran fyrir sumarið og hálendið.

Við Dyngjufjöll


Forsetinn

Ég styð forsetann, þó honum verði það á stundum að gleyma að hann er hættur í pólitík og situr ekki í neinu bankaráði.  Ekki vildi ég fá aftur "fosseta ísslands" eins og við höfðum einu sinni.

Sumir virðast vilja fá einhverja gufu í þetta embætti, sem gerir ekkert annað en að klippa á borða í fánalitunum og talar svo "abstrakt" að maður er engu nær.

Svo er Ólafur svo frábærlega vel giftur, konu sem þorir að vera hún sjálf og er svo fjarri því að vera einhver þögul hofróða sem hvorki dettur af né drýpur.

Heill forseta vorum !


mbl.is Tæpur þriðjungur ánægður með forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband