Bloggfærslur mánaðarins, maí 2022

Fjölmennasti þéttbýlisstaður Austurlands í alfaraleið - eða ekki ?

Nú um þessar mundir gengur maður undir manns hönd og leggur á ráðin um það hvernig sé best að koma fjölmennasta þéttbýlisstað á Austurlandi úr alfaraleið.  Tilefnið er þó ekki annað en það að til stendur að eftir rúman áratug muni umferð milli Seyðisfjarðar og Héraðs fara um jarðgöng en ekki yfir Fjarðarheiði.  Talað er um þungaflutninga og umferðarþunga í innan við þrjúþúsund manna byggð og í landshluta sem ekki telur nema rúm tíu þúsund manns.  Við erum sem sagt ekki að tala um „borgarvandamál“. Við búum ekki beinlínis á Manhattan !
Frá því að þéttbýli fór að myndast á Egilsstöðum fyrir rúmum 70 árum hefur útgangspunkturinn verið skurðpunktur tveggja samgönguæða, annars vegar Fagradalsbrautar frá Reyðarfirði og hins vegar þess sem liggur norður Egilsstaðanesið og um Lagarfljótsbrú. Út frá þessum krossgötum hefur öll þróun byggðarinnar verið og þessar vegtengingar hafa verið lífæð bæjarins.

Nú er látið sem sá hluti Fagradalsbrautar sem liggur gegnum þéttbýlið sé vandamál og sumir nota um það stór orð.  Rétt er það að þessi 930 metra langi vegstúfur er ekki vel hannaður, en til er samþykkt deiliskipulag sem bætti þar verulega úr, yrði framkvæmt eftir því.  Úrbæturnar fælust í því að aðskilja akreinarnar tvær með ca 4 m breiðri eyju, sem gæfi rými fyrir afreinar fyrir þá umferð sem sveigði til vinstri.  Þá er gert ráð fyrir hringtorgi efst við vegamót við (núverandi) Seyðisfjarðarveg.  Með öðru hringtorgi þar sem Fagradalsbraut mætir (fyrrverandi og verðandi*) hringvegi, ásamt fækkun götutenginga inn á þennan 930 m langa spotta yrði ástandið harla gott.  Og ef nú þetta væri ekki nóg, þá er í áðurnefndu deiliskipulagi gert ráð fyrir einum undirgöngum undir Fagradalsbrautina.
Þessu til viðbótar má nefna að ef ökuhraði á Fagradalsbraut yrði 30 km/klst í stað 50, þá lengdist ferðatími eins ökutækis þessa leið um heilar 45 sekúndur !

Ekki eru miklar líkur á því að jarðgöng til Seyðisfjarðar valdi byltingu í umferð þaðan og þangað frá því sem nú er.  Hins vegar gæti svo farið að nútímalegur vegur um Öxi auki umferð um veginn þaðan og til Egilsstaða.  En allt eru þetta litlar tölur og verða það svo langt sem séð verður.

Enn er óvissa um það hvar ný brú yfir Lagarfljót verður staðsett, en vonandi verður hún og vegur að henni að austanverðu þannig að ekki hindri lengingu flugbrautar Egilsstaðaflugvallar, ef þörf krefur síðar.

Nóg um vegi, umferð og það allt saman.

Það hefur nýlega verið kynnt tillaga að svokölluðu miðbæjarskipulagi fyrir Egilsstaði. Sú tillaga er langt í frá gallalaus frekar en önnur mannanna verk, þó hún sé til muna raunhæfari en forverinn.  Eigi tillagan eftir að móta þróunina eins og hún leggur upp með er afar brýnt að öll sú starfsemi sem lítill þéttbýlisstaður getur lagt til og er til þess fallin að laða að sér fólk finni sinn stað á þessu væntanlega miðbæjarsvæði.  Það væri framhald á þeirri þróun sem verið hefur hér frá upphafi þéttbýlis, verslunar og þjónustu á Egilsstöðum.

Ætli menn hins vegar að stefna á aðrar krossgötur, önnur vegamót  annars staðar, þá yrði efnt til samkeppni milli miðbæjarins og einhvers annars punkts, sem væri jafnvel í litlum sem engum tengslum við lifandi bæjarlíf. Slíkt væri e.t.v. hægt að leyfa sér í fimmfalt eða tífalt stærri þéttbýlisstað, en fyrir Egilsstaði gegndi allt öðru máli.

Sá sem þetta skrifar hefur varið nær allri starfsævinni í skipulagsmál og áætlanagerð um þróun byggða, hérlendis og erlendis. Áskoranir og ógnanir byggðaþróunarinnar á Egilsstöðum eru á engan hátt einstakar. Svipuð álitamál er að finna víða.  Það sem skiptir máli er festa og talsverður slatti af íhaldssemi þegar gerðar eru framtíðaráætlanir.  Öllu skiptir að byggðin vaxi eins og tré og bæti árhringjunum við, en standi föstum rótum í grundvellinum sem var kveikjan að því að byggðarlagið varð yfirleitt til. Tré sem er rifið upp og komið fyrir á nýjum stað gæti lent í skakkaföllum og jafnvel orðið fyrir verulegu tjóni.
Þéttbýlisstaðir eins og tré vaxa og verða til þar sem „jarðvegurinn“ er réttur.
Hlúum að því sem við eigum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband