Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

"Nýi sáttmáli" ? NEI TAKK !

Það fer hrollur um mig þegar ég les þessa frétt um norsk-íslenskt bandalag.  Noregur er vissulega fallegt land og þar er margt ágætis fólk - en að ganga í bandalag með Noregi sem eins konar mótleik gegn Evrópusambandinu er fáránleg hugmynd.

Ég bjó nógu lengi í Noregi til þess að kynnast því hvernig það samfélag er. Það er alls ekki alslæmt, en það er - hvað á ég að segja - afar ó-íslenskt.  Hafi einhverjum þótt ýmsir hlutir í okkar kerfi hér heima ferkantaðir, þá tekur nú steininn úr þegar kemur til Noregs.

Menn skulu athuga það að Noregur er eitt af fáum löndum Evrópu, ef ekki það eina, sem heldur uppi landakröfum.  Noregur hefur gegnum tíðina rekið utanríkispólitík sem beinist að því að auka norsk áhrif og jafnvel að vinna önnur lönd undir sig.  Á sínum tíma reyndu þeir að leggja Austur Grænland undir sig, en voru gerðir afturreka.  Hins vegar náðu þeir Jan Mayen, sem hafði þó verð að nokkru nýtt frá Íslandi áður.  Hver man ekki æsinginn í þeim út af Smuguveiðunum, sem þó er alþjóðlegt hafsvæði. Nú predika þeir að Svalbarði sé hluti af Noregi, þó svo sé ekki.  

Noregur grár fyrir járnum.  Herinn hefur sterka stöðu og Norðmenn blása stöðugt í glóðir niðurlægingar sinnar frá stríðsárunum.  Stórveldisdraumar þeirra eru alls ekki dauðir, né heldur sú kynþáttahyggja sem ekki er talin í húsum hæf víðast hvar í Vestur-Evrópu. Það var raunalegt að upplifa það sem innflytjandi í Noregi að heyra hvernig jafnvel vel menntað og upplýst fólk þar talaði um innflytjendur af erlendum uppruna í landinu, ekki síst ef þeir aðhylltust önnur trúarbrögð en fjöldinn eða hafði annan húðlit.

Ég á marga vini í Noregi og það er allt ágætisfólk.  En rétt eins og við Íslendingar sem höfum fengið græðgina í arf frá "vertíðarmennsku" og skyndi-hergróða, þá eiga Norðmenn annan arf sem ég held að best sé að þeir séu einir um.  Noregur er nú einusinni stærsta eyja Evrópu !


mbl.is Ísland og Noregur myndi með sér bandalag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegt mál

Í venjulegu árferði er eflaust eðlilegt að hafa trúnað um eigna- lána- og skuldastöðu einstakra fyrirtækja af samkeppnisástæðum.  En nú horfir öðruvísi við:  Skýrslan er þegar öllum aðgengileg og hver sem er getur komist yfir hana, hvernig sem hún lak út á veraldarvefinn.  Það er heldur ekkert venjulegt árferði í landinu núna.

Það er því all merkilegt að fjölmiðlum sé óheimilt að fjalla um hana, þ.e. einum fjölmiðli, nefnilega RÚV.

Það er deginum ljósara að athafnir stjórnenda bankanna allt árið 2008 og trúlega lengur hafa ekki verið til þess fallnar að öllu leyti að verja hagsmuni bankanna sjálfra.  Ella hefðu þeir varla fallið hver af öðrum eins og spilaborgir. Það hefur verið gefið í skyn hvað eftir annað að bankarnir hafi verið notaðir til að koma fjármunum ýmissa aðila, tengdra og ótengdra, út úr íslensku fjármálakerfi, til síðari nota.  Hvað hæft er í því á eftir að  koma í ljós.  Stóru orðin bíða því enn um sinn og er það miður. Kannski á eitthvað eftir að koma í ljós við persónuleg gjaldþrotaskipti eins eigenda Landsbankans, sem gæti kastað ljósi á atburðarásina.  Hver veit ?


mbl.is Kaupþing fékk lögbann á RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband