Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
Ögurstundin nálgast
30.12.2009 | 17:02
Enn er von. Verði Icesave-frumvarpið fellt í kvöld kemur upp sú stða sem Pétur Blöndal lýsti í Kastljósi Sjónvarpsins í gær. Þá er bara að vona að Bretar og Hollendingar lýsi því yfir að þeir sætti sig ekki við niðurstöðu Alþingis frá í ágúst sl. og að málið fari fyrir íslenska dómstóla. Versta niðurstaðan úr því yrði aldrei verri en það sem ríkisstjórnin er nú að þvinga í gegn.
Eflaust hangir fleira á spýtunni. Vera kann að með dómsmáli um Icesave fari draumar Samfylkingarinnar um Evrópusambandsaðild út í veður og vind. Um sinn. Og þó ég sé eindreginn stuðningsmaður aðildar að Evrópusambandinu, þá vil ég ekki að hún verði of dýru verði keypt. Ekki heldur vil ég horfa upp á Ísland fara þar inn skottið milli fóta og allt í óreiðu í okkar málum. Evrópusambandaðild á eftir að koma, jafnvel þó við deilum um það mál jafn lengi og við deildum um það hvort drekka mætti bjór í landinu. Það er bara ekki rétti tíminn núna þegar óvissan í okkar málum er svo mikil sem raun ber vitni.
Icesave-umræðu lýkur í kvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
H R A P A
11.12.2009 | 21:06
Samkvæmt fréttinni á Minnismerki Björgólfs að heita Harpa. Þetta hlýtur að vera misskilningur.
Auðvitað meintu forkólfar Musterisins að það ætti að heita HRAPA !
Hér er að rísa minnismerki um það stutta tímabil Íslandsögunnar þegar þorri þjóðarinnar trúðu á álfasögur, rétt eins og jarðálfarnir í Þykkvabæjarkartöfluauglýsingunni hér um árið.
HRAPA SKAL ÞAÐ HEITA
Harpa skal tónlistarhúsið heita | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Segir sitt um menningarstig þjóðar
8.12.2009 | 19:50
Kanarnir halda áfram að fínslípa aðferðir við að drepa fólk. Gasklefar, rafstuð, eitraðar lyfjagjafir og fleira hefur verið reynt.
Ég hef aðeins eina skoðun á þessu öllu: Dauðarefsing er siðleysi eða siðferðileg uppgjöf sem með engu móti er hægt að réttlæta í upplýstu menningarsamfélagi, sama hver málsatvik eru. Þjóðir sem enn halda sig við þá frumstæðu villimennsku að taka fólk af lífi eftir opinberan dóm verðskulda ekki að teljast menningarþjóðir. Þá gildir einu hvort það eru Bandaríkin, Rússland, Kína eða arabalöndin. Frumskylda hvers samfélags er að stuðla að velferð þegnanna, burtséð frá stöðu þeirra. Vernda þá fyrir áföllum og slysum. Enda er kostað miklu til að hindra slys og hamfarir og bjarga mannslífum ef svo ber undir.
Ég vil ganga lengra, í tilefni af því að ýmis lönd eru nú að senda þúsundir manna í stríð í fjarlægum heimshluta. Það er mannréttindabrot að skylda fólk til þess að bera vopn gegn öðru fólki, í nafni einhvers lands eða þjóðar. Herskylda er mannréttindabrot. Það breytist stöðugt í áranna rás hverjir eru fjendur og hverjir vinir í heimi hér. Hinn "heilagi málstaður" sem eitt sinn var hafður sem átylla herkvaðningar er áður en varir orðinn úreltur, gleymdur - og jafnvel hlægilegur.
Ég man ekki eftir hverjum það var haft, en ég heyrði einu sinni tilvitnun sem ég man vel:
"Ekkert land og engin þjóð er þess virði að fórna lífinu fyrir."
Ný aðferð við aftökur í Bandaríkjunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Íslenskukunnátta blaðamanna Moggans
1.12.2009 | 09:35
.. eða réttara sagt kunnáttuleysi.
Það er orðið hrein raun að opna vefsíðu Morgunblaðsins, því það má heita daglegt brauð að þar æpi á lesandann alls kyns málfarsambögur. Vitanlega geta slæðst innsláttarvillur í hvaða texta sem er, ekki síst við fréttaskrif, þar sem hraðinn er mikill. En hér er um eitthvað annað, meira og verra að ræða.
Eitt dæmi um misskilning eða kunnáttuleysi blaðamanns birtir Mogginn á netsíðu sinni í dag, en það er skemmtifrétt um "Aðhaldsnærföld fyrir bjórvömbina" ! Sé fréttin skoðuð nánar kemur í ljós að hún fjallar um einhvers konar lífstykki fyrir karlmenn, til að minna beri á bjórvömb og fitu á kroppnum. "Nærfald" er orð sem ég hef aldrei séð né heyrt áður, en nærhald þekki ég. Ekki veit ég betur en að nærhald sé sú flík sem ég kalla brók, en á Suðvesturlandi gengur hún undir því teprulega nafni nærbuxur. Aðhaldsnærhald væri því trúlega einhvers konar brók sem veitir aðhald. Ef til vill til að þrýsta þjóhnöppunum saman eða til að halda að einhverju öðru sem brókin hylur.
Af fréttinni að dæma voru þessi "nærföld" ætluð til að halda bjórvömbinni inni, en fráleitt er að þetta plagg dugi til að leysa vandann, ef vömbinn er sigin ofan í brók.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)