Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

VARÚÐ ! Sjálfstæðsflokkur

Líklega hefur ekkert afl hér á landi, allar götur frá því á sturlungaöld, verið nær því að kosta landið sjálfstæði sitt og rústa íslensku samfélagi en Sjálfstæðisflokkurinn. Það er nánast fáránlegt að það afl í íslenskri pólitík sem harðast hefur stutt setu erlends hers í landinu og klifað á því að við þyrftum hervarnir hefur öðrum fremur gert landið og þjóðina varnarlausa.

Þúsundmilljarðaflokkurinn sem hefur "einstaklingsfrelsið" að leiðarljósi, flokkurinn sem lítur á samfélagið sem veiðistöð gróðamanna, hefur með fylgispekt "sjálfstæðismanna" í öðrum flokkum komið hlutunum svo fyrir að bankakerfið og fámennur hópur auðmanna hefur nú látið greipar sópa um eignir almennings.  Svo rækilega hefur þetta tímabil valdasetu flokksins undanfarin ár gengið fram að við liggur að hallæri og náttúruhamfarir liðinna alda er helst að nefna sem samjöfnuð.

Ég er nógu gamall til að muna fyrri valdasetutímabil "Sjálftökuflokksins".  Þá hét ríkisstjórnin Viðreisnarstjórn.  Valdatímabilið þá einkenndist af neikvæðum vöxtum og algerri stöðnun um allt land, að Reykjavíkursvæðinu undanskildu.  Sparifé tveggja kynslóða var hirt og þriðja kynslóðin skuldsett. Á þeim árum var nánast ekkert vegakerfi í landinu.  Heildsalar söfnuðu fé á erlendum bankareikningum, meðan þjóðin hafði engan beinan aðgang að erlendum gjaldeyri. Ekkert vegakerfi, gamaldags handvirkt símakerfi og ekki einu sinni útvarp sem náðist út fyrir suðvesturhornið. Lánsfé var skammtað af pólitískt ráðnum bankastjórum, sem gátu mismunað fólki að vild.

Þessi síðasta hrina valdasetu einkaframtaksflokksins hefur þó verið miklu stórtækari en orð fá lýst. Nú stefnir í met atvinnuleysi, sparifé og aðrar eignir almennings eru í stórhættu og þjóðarbúið bundið á klafa óheyrilegra skulda.  Í raun er stærðargráðan slík að venjulegu heiðarlegu fólki er það óskiljanlegt.

Það er bara eitt til ráða: Það verður að setja þessi skaðsemdaröfl í algera sóttkví.  Við getum ekki látið brennuvarga leika lausum hala.  Það má gera með því að slíta öllu samstarfi við þetta lið, innan Alþingis og utan.  Það er ekki hægt að banna stjórnmálaflokka í lýðræðisríki, en það er fullkomlega mögulegt að sniðganga þá og einangra frá öllum áhrifum.  Til þess þarf samstöðu, en það er einmitt það afl sem er að mótast og styrkjast í landinu um þessar mundir.

Það verður að koma þessum flokki frá völdum og það þolir enga bið.  Það verður að tryggja það að hann komist ekki til áhrifa næstu áratugina.  Þá mun áhangendum hans smám saman fækka og hann enda sem hver annar hægri öfgaflokkur, gjammandi á hliðarlínunni.  

Landvarnir byggjast ekki á útlendum herþotum í háloftonum yfir Íslandi.  Sjálfstæðismenn hafa klifað á þessu herbrölti til þess eins að draga athyglina frá öðrum og mikilvægari málum.  Raunverulegar landvarnir byggjast á efnahagslegum viðbúnaði, hagvörnum.  Varnarstaða Íslands byggist á því hversu vel við þolum utan að komandi áföll, vegna efnahagssveiflna og pólitískra hræringa í heiminum kringum okkur.  Það er að mörgu að hyggja í því efni og þegar til kastanna kemur lifum við ekki á pappír, jafnvel þótt á hann séu skrifaðar stórar tölur.  Við lifum á því sem við öflum, ræktum, veiðum, framleiðum og seljum.  Við þurfum að verja landið fyrir ræningjum og sjálftökuliðinu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur alið og skýlt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband