Fjölmennasti þéttbýlisstaður Austurlands í alfaraleið - eða ekki ?

Nú um þessar mundir gengur maður undir manns hönd og leggur á ráðin um það hvernig sé best að koma fjölmennasta þéttbýlisstað á Austurlandi úr alfaraleið.  Tilefnið er þó ekki annað en það að til stendur að eftir rúman áratug muni umferð milli Seyðisfjarðar og Héraðs fara um jarðgöng en ekki yfir Fjarðarheiði.  Talað er um þungaflutninga og umferðarþunga í innan við þrjúþúsund manna byggð og í landshluta sem ekki telur nema rúm tíu þúsund manns.  Við erum sem sagt ekki að tala um „borgarvandamál“. Við búum ekki beinlínis á Manhattan !
Frá því að þéttbýli fór að myndast á Egilsstöðum fyrir rúmum 70 árum hefur útgangspunkturinn verið skurðpunktur tveggja samgönguæða, annars vegar Fagradalsbrautar frá Reyðarfirði og hins vegar þess sem liggur norður Egilsstaðanesið og um Lagarfljótsbrú. Út frá þessum krossgötum hefur öll þróun byggðarinnar verið og þessar vegtengingar hafa verið lífæð bæjarins.

Nú er látið sem sá hluti Fagradalsbrautar sem liggur gegnum þéttbýlið sé vandamál og sumir nota um það stór orð.  Rétt er það að þessi 930 metra langi vegstúfur er ekki vel hannaður, en til er samþykkt deiliskipulag sem bætti þar verulega úr, yrði framkvæmt eftir því.  Úrbæturnar fælust í því að aðskilja akreinarnar tvær með ca 4 m breiðri eyju, sem gæfi rými fyrir afreinar fyrir þá umferð sem sveigði til vinstri.  Þá er gert ráð fyrir hringtorgi efst við vegamót við (núverandi) Seyðisfjarðarveg.  Með öðru hringtorgi þar sem Fagradalsbraut mætir (fyrrverandi og verðandi*) hringvegi, ásamt fækkun götutenginga inn á þennan 930 m langa spotta yrði ástandið harla gott.  Og ef nú þetta væri ekki nóg, þá er í áðurnefndu deiliskipulagi gert ráð fyrir einum undirgöngum undir Fagradalsbrautina.
Þessu til viðbótar má nefna að ef ökuhraði á Fagradalsbraut yrði 30 km/klst í stað 50, þá lengdist ferðatími eins ökutækis þessa leið um heilar 45 sekúndur !

Ekki eru miklar líkur á því að jarðgöng til Seyðisfjarðar valdi byltingu í umferð þaðan og þangað frá því sem nú er.  Hins vegar gæti svo farið að nútímalegur vegur um Öxi auki umferð um veginn þaðan og til Egilsstaða.  En allt eru þetta litlar tölur og verða það svo langt sem séð verður.

Enn er óvissa um það hvar ný brú yfir Lagarfljót verður staðsett, en vonandi verður hún og vegur að henni að austanverðu þannig að ekki hindri lengingu flugbrautar Egilsstaðaflugvallar, ef þörf krefur síðar.

Nóg um vegi, umferð og það allt saman.

Það hefur nýlega verið kynnt tillaga að svokölluðu miðbæjarskipulagi fyrir Egilsstaði. Sú tillaga er langt í frá gallalaus frekar en önnur mannanna verk, þó hún sé til muna raunhæfari en forverinn.  Eigi tillagan eftir að móta þróunina eins og hún leggur upp með er afar brýnt að öll sú starfsemi sem lítill þéttbýlisstaður getur lagt til og er til þess fallin að laða að sér fólk finni sinn stað á þessu væntanlega miðbæjarsvæði.  Það væri framhald á þeirri þróun sem verið hefur hér frá upphafi þéttbýlis, verslunar og þjónustu á Egilsstöðum.

Ætli menn hins vegar að stefna á aðrar krossgötur, önnur vegamót  annars staðar, þá yrði efnt til samkeppni milli miðbæjarins og einhvers annars punkts, sem væri jafnvel í litlum sem engum tengslum við lifandi bæjarlíf. Slíkt væri e.t.v. hægt að leyfa sér í fimmfalt eða tífalt stærri þéttbýlisstað, en fyrir Egilsstaði gegndi allt öðru máli.

Sá sem þetta skrifar hefur varið nær allri starfsævinni í skipulagsmál og áætlanagerð um þróun byggða, hérlendis og erlendis. Áskoranir og ógnanir byggðaþróunarinnar á Egilsstöðum eru á engan hátt einstakar. Svipuð álitamál er að finna víða.  Það sem skiptir máli er festa og talsverður slatti af íhaldssemi þegar gerðar eru framtíðaráætlanir.  Öllu skiptir að byggðin vaxi eins og tré og bæti árhringjunum við, en standi föstum rótum í grundvellinum sem var kveikjan að því að byggðarlagið varð yfirleitt til. Tré sem er rifið upp og komið fyrir á nýjum stað gæti lent í skakkaföllum og jafnvel orðið fyrir verulegu tjóni.
Þéttbýlisstaðir eins og tré vaxa og verða til þar sem „jarðvegurinn“ er réttur.
Hlúum að því sem við eigum.


Ég er íhald

Ég er örugglega íhaldsmaður:

Ég vil dagskrárlið í útvarpinu endurvakinn,sem var við lýði um áratuga skeið.

Klukkan 18:45 mátti heyra, "Þetta er á Veðurstofu Íslands, veðrið klukkan 18"
Síðan voru lesin veðurskeyti frá öllum veðurstöðvum landsins, auk Tíngmíarmíút, Tóbínhöfða, Þórshafnar í Færeyjum og slatta af skipum.
Í lokin var tilgreint hvar hlýjast hafði verið á landinu þann daginn, hvar vindhraði hafði verið mestur og hvar mest hafði rignt eða snjóað.

Reyndar var alltaf tilgreint annars vegar hvernig þetta hafði verið í Reykjavík og hins vegar hvernig ástandið hafði verið á landinu.  Það gaf manni þá hugmynd að trúlega væri Reykjavík alls ekki á landinu, heldur á einhverjum öðrum stað.

Nú er búið að menga RÚV rás 1, með því sem maður forðaðist mest á rás tvö : Leiknar, öskraðar eða emjaðar auglýsingar.  Fluttar eins og það sé upphrópunarmerki á eftir hverju orði.

Ég tek fram að ég opna ekki rás tvö, nema ef ég er á akstri, hef misst af kvöldfréttunum og langar til að heyra sjónvarpsfréttirnar.  Ekki þýðir að vænta veðurfrétta á þeirri rás, því þar er þeim rækilega úthýst.


Algerlega ósammála

Því skyldum við kjósa framkvæmdavald beinni kosningu og Alþingi í annari ?

Það á að koma því þannig fyrir að alþingismenn séu ekki kjörgengir til ráðherraembætta.  Alþingi á að ráða ráðherrana til starfa sem sína þjóna, sem fara með framkvæmdavaldið  á þann hátt sem þingið ákveður með lögum og öðrum fyrirmælum.  Það þarf að takmarka vald ráðherranna verulega, m.a. vald til setningar reglugerða.

Forsetinn er síðan "umboðsmaður stjórnarskrárinnar" og þeirra grundvallarreglna sem hún setur


mbl.is Gagnrýndi stjórnvöld harðlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær læra blaðamenn stafsetningu ?

Hyllir undir meirihluta.... skrifar auminga maðurinn.

Veit hann ekki muninn á því að hylla einhvern eða eitthvað eða að það hilli undir eitthvað ?

Ég vona að það HILLI undir að maður hnjóti ekki stöðugt um aulaambögur á mbl.is


mbl.is Hillir undir meirihluta í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðishalli

Ég stóð upp frá sjónvarpinu sem er að sýna viðtöl við forystumenn allra framboðanna í Reykjavík. Ég nenni ekki að hlusta á þetta lengur, því ég fer ósjálfrátt að hugsa um hvað Reykjavík eiginlega er, eins og ég sé höfuðborgina mína.  Ég segi mína, því ég er Íslendingur og á heima á þessu landi sem á eina höfuðborg.  Og það er þá líka mín höfuðborg.

Í Reykjavík er Alþingi, Stjórnarráðið, Háskóli Íslands, Landspítali-Háskólasjúkrahús og nær allar íslenskar ríkisstofnanir. Og innanlandsflugvöllurinn, sem er tengiliðurinn við höfuðborgina mína.

Allt er þetta í einu og sama sveitarfélaginu. Og auðvitað hefur sveitarstjórn þessa sveitarfélags mikið um það að segja hvernig þessum stofnunum okkar allra vegnar.  Fyrir utan það að þessar stofnanir okkar allra, mín og þín, skila þessu eina sveitarfélagi mjög miklum tekjum.

Ég hef ekki kosningarétt til neinnar annarrar sveitarstjórnar en þeirrar sem situr í því sveitarfélagi sem ég bý í.  Sveitarstjórn Reykjavíkur hefur skipulagsvald, eins og aðrar sveitarstjórnir og nú stefnir allt í það að í Reykjavík verði þessu skipulagsvaldi beitt til að úthýsa Reykjavíkurflugvelli, sem er þó mikilvægasta tenging mín við höfuðborgina mína og stofnanir okkar allra sem þar eru.

Þegar fram fór atkvæðagreiðsla um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri fór fram höfðu allir Reykvíkingar með atkvæðisrétt möguleika á að greiða atkvæði.  Líka Kjalnesingar, sem búa talsvert lant frá vellinum og hafa ekki mikilla hagsmuna að gæta.  Á sama tíma gátu íbúar á Kársnesi í Kópavogi ekki kosið, þó þeir búi undir aðflugsleið að vellinum úr suðri.  Því síður ég, þó ég eigi beinna hagsmuna að gæta.

Ég sé bara eina lausn á þessu:  Það þarf að skilgreina miðborg Reykjavíkur og flugvallarsvæðið sem sérstakt svæði sem ekki er hluti af sveitarfélaginu Reykjavík.  Ekki hluti af neinu sveitarfélagi í venjulegum skilningi, heldur svæði sem hefur sérstaka yfirstjórn sem kosið er til af öllum landsmönnum.

Ég á ekki heima "úti á landi", eiginlega frekar "inni á landi", því það er langt til sjávar frá mínu heimili.  Ég á heima á Íslandi og landið allt er landið mitt, heimaland mitt.  Í þessu landi er ein höfuðborg sem ég á hlutdeild í, til jafns við alla aðra sem búa í landinu, hvort sem þeir eiga heima langt eða stutt frá sjó, eða langt eða stutt frá höfuðborginni.


Matarleyfi ?

Mér finnst vanta í fréttina hvort auk dagblaðanna hafi verið einhver skjöl með útgefnum "matarleyfum".  Greinilegt er samt að þessi gerningur var gerður í leyfisleysi.

Það er annars löngu kominn tími á það að "skríbentar" frétta á mbl.is læri stafsetningu.


mbl.is Bílnum pakkað inn í plast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, Djúpavogsbúar !

Gleðivíkin stendur undir nafni.
mbl.is Skemmtiferðaskip til Djúpavogs í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannekla

Mér sýnist að það væri þjóðráð að fara með þessa menn austur undir Eyjafjöll og láta þá hjálpa bændum þar.  Það mætti fylgja með að ef þeir standa sig ekki verði þeim boðið í flugferð yfir jökulinn og sleppt ofan í gíginn !
mbl.is Gæsluvarðhaldsúrskurður kærður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú ættu Jóhanna og Steingrímur að þegja

Þó margir séu reiðir og jafnvel þó svo sé komið málum sem raun ber vitni, þá er ein grundvallarregla enn í gildi í okkar réttarfari:  Enginn er sekur fyrr en dómstóll hefur dæmt sekt.  Að heyra blaðrið í þessari gömlu og þreyttu konu sem við köllum forsætisráðherra og sömuleiðis í Heilögum Steingrími gengur út yfir allt.  Þau eru komin í flokk með forsetanum með ótímabært og óábyrgt tal.

Að forsvarsmenn framkvæmdavaldsins skuli voga sér að opna munninn opinberlega um sakamál á þessu stigi er óafsakanlegt.  Burtséð frá því hvað þau eða við hin meinum um viðkomandi einstaklinga og burtséð frá því þótt við hugsum forsprökkum útrásarinnar þegjandi þörfina.

Látum dómsvaldið og réttvísina vinna sitt verk án þess að blanda okkur í það


mbl.is Kaupþingsmenn í gæsluvarðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úffelín greifi gengur aftur !

Það rifjast upp fyrir mér stórkostlegur kafli úr Íslandsklukku Halldórs Laxness:

"Ef varnarlaus smáþjóð hefur mitt í sinni ógæfu borið gæfu til að eignast mátulega sterkan óvin mun tíminn gánga í lið með henni einsog því dýri sem ég tók dæmi af.  Ef hún í neyð sinni játast undir tröllsvernd mun hún verða gleypt í einum munnbita.  

......

Hver er þá orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur?  Þeir íslensku mundu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar þýsks leppríkis.  Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima."


mbl.is Íslandslán ekki á dagskrá AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband