Viðtalið við Njörð P Njarðvík í dag

Ég vil hvetja alla þá sem heyrðu viðtalið við Njörð að íhuga vel það sem þar kom fram.  Hann var alveg frábær, skýr á öllum punktum og lagði málið fram með einstökum hætti.

Því miður heyrði ég ekki viðtalið  í heild sinni, en af því sem ég heyrði, þá verð ég að segja eins og er að ég var honum sammála í ÖLLU því sem fram kom hjá honum.

Það er ákveðin hætta á því núna, í því ástandi sem er í samfélaginu og undir öllum þeim upphrópunum sem á landsmönnum dynja, að aðalatriðin gleymist.  Auðvitað eigum við nú að nota tímann í að hugsa alvarlega um það sem máli skiptir:  Hvers konar samfélagi viljum við búa í.

Við búum nú við flokksræði í stað lýðræðis og höfum gert lengi.  Við horfum upp á það hvernig gert er lítið úr forsetanum, sem er kosinn af okkur, fólkinu í landinu beinni kosningu.  Við horfum upp á það að í stól löggjafarsamkundu landsins er settur afdankaður ráðherra. Við horfum upp á það - og hristum hausinn án þess að gera svo sem mikið meira - þegar valdaelítan velur úr eigin röðum fólk til þess að gegna sendiherrastöðum, seðlabankastjórastöðum og þvíumlíku.  Svo hefur þetta lið tryggt sér allt önnur kjör varðandi eftirlaun og fríðindi en fólk flest.

Verst af öllu er að horfa upp á það þegar ráðherrar verða uppvísir að því að fara á svig við eða brjóta stjórnsýslulög, eins og nýlegt dæmi sýnir.  Afleiðingarnar eru engar.  Stjórnsýslulögin eru grundvallarlög í landinu, til þess að tryggja sanngirni og jafnræði þegnanna.  Æðsta stjórnsýsla landsins á að standa vörð um það að þeim lögum sé fylgt og í mínum huga er það margfalt alvarlegra mál þegar ráðherra brýtur þau lög en ef t.d. einhver kontóristi í sveitarfélagi gerist brotlegur.  Lögbrot ráðherra ætti að varða starfssviptingu að undangengnum dómi, en ráðherra ætti að víkja úr embætti meðan á rannsókn stæði.

Á liðnu hausti var reistur minnisvarði á Akureyri um meint umferðarlagabrot, sem leiddi til þess að valdaelítan á Íslandi "neyddist" til þess að koma því á að ekki væri sami aðili látinn rannsaka mál og dæma í þeim.  Það var í samræmi við þau valdaprinsíp sem eru að finna í stjórnarskránni um þrískiptingu valds í landinu.

Það er grundvallaratriði að þrískipting valdsins sé alveg tær og skýr á öllum stigum.  Það er óhæfa að þingmaður sé ráðherra samtímis, ekkert síður en það væri óhæfa að hæstaréttardómari væri ráðherra.

Það er margt og mikið hægt að segja um kosningalöggjöfina og kosningafyrirkomulagið hjá okkur.  Allir virðast sammála um að þar þurfi að gera breytingar, en menn greinir á hvað eigi að koma í staðinn.  Í mínum huga er mikilvægast að berja niður flokkaveldið.  

Ég hef tekið þátt í mörgum alþingiskosningum.  Neyðst til þess að velja á milli örfárra flokka, sem fyrir fram stilltu upp einstaklingum sem voru búnir að "ganga gráðurnar" í metorðunum.  En aldrei hef ég kosið ríkisstjórn.  

Meira um þetta síðar


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband